04.10 2018

Klæðning eða veðurkápa? Fróðleikur um brunamál og klæðningar utanhúss

Klæðning eða veðurkápa? Fróðleikur um brunamál og klæðningar utanhúss

Að gefnu tilefni er vert að benda á muninn á klæðningu annarsvegar og veðurkápu sem yfirborðsefni hinsvegar. Í brunatæknilegum skilningi er klæðning efni sem ver og hylur annað efni sem liggur undir eða klæðir það af með þeim hætti að mögulegur eldur nær ekki að innra efninu. Veðurkápa er yfirborðsefni með loftræstu bili að einangrun. Evrópskur prófunarstaðall er notaður til að skilgreina hæfni klæðninga með tilliti til bruna og hvort viðkomandi efni geti yfir höfuð talist klæðning í brunatæknilegum skilningi. Byggingarreglugerð skilgreinir klæðningu í flokki 1 á þann hátt að hún standist K210, B-s1,d0 , en klæðningarprófið K210 segir í einföldu máli að hitaáraun í prófinu valdi efninu ekki skemmdum á 10 mínútum sem prófið stendur yfir.

Flestar málmklæðningar geta því ekki flokkast sem klæðningar í brunatæknilegum skilningi. Klæðning er venjulega þykkara efni sem hefur varmaleiðni mótstöðu. Málmklæðning eða önnur þunn klæðning er því skilgreind sem veðurkápa eða regnhlíf. En með veðurkápu er verið að tala um ysta yfirborð bygginga. Veðurkápan er venjulega loftuð en ef hún skrúfast eða límist beint á útvegg er ekki um veðurkápu að ræða í brunatæknilegu samhengi. Byggingarreglugerð tekur sérstaklega á kröfum til yfirborðsflata útveggja og kemur sú grein í heild sinni hér fyrir neðan.

9.7.3. gr. Yfirborðsfletir útveggja.

Meginreglur: Yfirborðsfletir útveggja skulu vera þannig að þeir valdi ekki sérstakri hættu á útbreiðslu elds milli brunahólfa eða auki verulega hættu á útbreiðslu elds milli bygginga.

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um yfirborðsfleti útveggja:

1. Yfirborðsfletir útveggja í einnar hæðar byggingum skulu að lágmarki vera klæðningar í flokki 2.

2. Yfirborðsfletir útveggja í byggingum sem eru meira en ein hæð skulu að lágmarki vera klæðningar í flokki 1. Utan á vegginn má setja regnhlíf og skulu öll efni tengd henni vera A2-s1,d0. Undir regnhlífinni (í loftræsta bilinu ef það er) skal vera samsvarandi brunavörn og er í þeirri brunahólfun hússins sem nær að útveggnum.

3. Í allt að átta hæða byggingum mega allt að 20% hvers veggflatar utanhúss vera afmarkaðir smáfletir með klæðningu í flokki 2. Mesta hæð hvers slíks flatar skal vera innan við 50% af salarhæð viðkomandi hæðar. Þá má ekki staðsetja þannig að þeir auki hættu á útbreiðslu elds milli hæða eða vera í flóttaleið.

Málmklæðningar eru því almennt ekki klæðningar heldur veðurkápur (regnhlífar) sem koma utan á útveggi. Þetta geta til dæmis verið steyptir burðarveggir sem einangraðir eru að utanverðu eða eftir atvikum aðrar veggtegundir sem henta viðkomandi byggingu. Gæta skal að því að viðmiðunarreglan gerir ráð fyrir að veðurkápur séu óbrennanlegar (A2-s1,d0) og að öll efni undir veðurkápunni líka. Þetta þýðir að leiðarar og festingar í loftræsta bilinu þurfa að vera óbrennanleg. Einangrun húsa skal vera óbrennanleg nema með örfáum undantekningum sem ekki eiga við þegar verið er að tala um útveggi með loftaðri veðurkápu. 

Samkvæmt viðmiðunarreglu byggingarreglugerðar þurfa yfirborðsefni bygginga sem notuð eru í veðurkápu (regnhlíf) að vera óbrennanleg þegar komið er yfir eina hæð eins og kemur fram í grein 9.7.3.  Ef víkja á frá þessum skilyrðum og nota til dæmis tregbrennanlegt efni (B-s1,d0) þarf alltaf að gera grein fyrir slíku fráviki á viðmiðunarreglu byggingarreglugerðar og um leið rökstyðja að meginreglan standist. Brunahönnuður viðkomandi byggingar skal því sýna fram á að klæðningin valdi ekki aukinni hættu á að eldur berist á milli brunahólfa og ógni þannig öryggi viðkomandi byggingar. Brunahönnuður tekur þá mið af brunaálagi, stærð brunahólfa, fjarlægð í næstu byggingar, skipulagi flóttaleiða og öðru því sem getur haft áhrif á heildar niðurstöðuna.

Davíð Snorrason, fagstjóri Eldvarnasviðs