14.11 2018

Eldvarnabandalagið og Brunavarnir Árnessýslu gera samkomulag um bættar eldvarnir

Eldvarnabandalagið og Brunavarnir Árnessýslu gera samkomulag um bættar eldvarnir

Þann 13. nóvember síðastliðinn var gert samkomulag milli Brunavarna Árnessýslu og Eldvarnabandalagsins um auknar eldvarnir og innleiðingu eldvarnaeftirlits á Suðurlandi.

Það voru þeir Björn Karlson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sem skrifuðu undir samstarfssamninginn. 

Markmiðið er að efla eldvarnir í stofnunum sveitarfélaga á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu og á heimilum starfsfólks. Samskonar samstarf hefur verið í fjölmörgum sveitarfélögum víða um land með góðum árangri.

Skv. Pétri Péturssyni verður fyrst byrjað með verkefnið í öllum grunnskólum í sýslunni. Af því tilefni voru skólastjórnendur boðaðir á fundinn og verkefnið kynnt fyrir þeim. Mun hver skóli tilnefna eldvarnafulltrúa til að gera mánaðarlegar eldvarnaskoðanir á húsnæði skólans og mun starfsfólk hans fá fræðslu um eldvarnir. Hefur reynslan af sambærilegum verkefnum sýnt að slík fræðsla skili sér ekki einungis í bættum eldvörnum á vinnustaðnum heldur einnig á heimilum.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.