02.01 2019

Félagsmálaráðuneyti nýtt ráðuneyti mannvirkjamála

Félagsmálaráðuneyti nýtt ráðuneyti mannvirkjamála

Frá og með 1. janúar 2019 var velferðarráðuneyti skipt upp í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, nr. 118/2018.  Þá var m.a. lagt til að málefni mannvirkja, þ.e. þau málefni sem Mannvirkjastofnun fer með, færist frá umhverfisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis með þingsályktunartillögu, sem samþykkt var með þingsályktun þann 5. desember 2018.

Frá og með 1. janúar 2019 fellur því starfsemi Mannvirkjastofnunar undir félagsmálaráðuneyti.

Vakin er sérstök athygli á því að kærur til ráðherra vegna stjórnvaldsákvarðana Mannvirkjastofnunar, eða annarra stjórnvalda eftir því sem við á sem heimilar eru samkvæmt lögum sem Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með,  skulu berast félagsmálaráðuneyti frá 1. janúar 2019 í stað umhverfisráðuneytis.