11.01 2019

Íbúðir sem markaðssettar eru fyrir aldraða

Íbúðir sem markaðssettar eru fyrir aldraða

Að gefnu tilefni vill Mannvirkjastofnun koma á framfæri túlkun á ákvæðum byggingarreglugerðar er varða svokallaðar íbúðir fyrir aldraða eða fatlaða, stundum nefndar öryggisíbúðir, s.s. fyrir fólk sem hefur takmarkaða hreyfigetu, en eru þó ekki hjúkrunarheimili. 
Þessar íbúðir eru að jafnaði hannaðar með eldriborgara í huga og hefur komið upp umræða um hvort skuli hanna slíkar íbúðir og slík mannvirki m.v. notkunarflokk 3 eða notkunarflokk 5.  
Hefðbundið húsnæði er í notkunarflokki 3  á meðan í notkunarflokki  5 eru mannvirki eða rými þar sem einhverjir innan mannvirkisins eru ekki færir um að koma sér sjálfir út úr mannvirkinu eða á öruggt svæði við eldsvoða. Það að skilgreina umræddar íbúðir í notkunarflokki 5 (í stað notkunarflokki 3) hefur eftirtaldar viðbótarkröfur í för með sér:

Brunahönnun, (9.2.4. gr., 2.mgr. e – liður).
Sjálfvirk brunaviðvörun/Brunaviðvörunarkerfi, ( 9.4.2. gr.).
Neyðarlýsing, (meiri krafa, 9.4.12. gr.).
Leiðamerkingar á flóttaleiðum (meiri krafa, 9.5.11. gr.).

Eitt af markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 er að tryggja aðgengi fyrir alla. Með aðgengi er átt við að fólk sem á við fötlun, veikindi eða skerta hreyfigetu að stríða, geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum jafnvel við óvenjulegar aðstæður, til dæmis eldsvoða. Jafnframt að við hönnun og brunavarnir mannvirkja séu hafðar í huga mismunandi þarfir og geta fólks með tilliti til sjónar og heyrnar, til dæmis við efnisval og útfærslur einnig sé gætt að hljóðvist og birtuskilyrðum innan og utan húss.

Áætlað er að minnst 10 % íbúa þjóðfélagsins séu hreyfihamlaðir eða búi við annars konar fötlun. Til viðbótar kemur svo stór hópur sem hefur skerta hreyfigetu vegna aldurs og tímabundinnar skerðingar á hreyfigetu, til dæmis vegna slysa, sjúkdóma, o.fl..  
Um 11 % Íslendinga eru 67 ára og eldri og fer sá hópur stækkandi.  Það er því þjóðhagslega mikið til vinnandi að eldri borgarar geti búið í íbúðum sínum sem lengst og er það ein af mörgum ástæðum fyrir að byggja skuli aðgengilegar íbúðir.
      
Það er því túlkun Mannvirkjastofnunar, m.v. ákvæði byggingarreglugerðar og framangreindan rökstuðning, að almennt skuli skilgreina eftirtaldar íbúðir/íbúðarhúsnæði í notkunarflokki 5:

Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað fyrir aldraða eða fatlaða og sem tengist 
þjónustukjörnum fyrir íbúana.
Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað fyrir aldraða eða fatlaða með þjónustu, 
þó ekki sólarhrings þjónustu.
Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað fyrir aldraða eða fatlaða þar sem búast má við 
að nokkur eða stór hluti íbúanna þurfi lengri rýmingartíma eða þarfnist aðstoðar 
ef eldur kemur upp í húsnæðinu.