20.03 2019

Hleðsla rafbíla

Hleðsla rafbíla

Að gefnu tilefni vill rafmagnsöryggissvið Mannvirkjastofnunar benda á að margs er að gæta varðandi hleðslu rafbíla. Til sérstakra ráðstafana þarf að grípa við hönnun og uppsetningu raflagna þar sem hleðsla rafbíla fer fram – ekki má „stinga bara í samband“ við hefðbundna raflögn hússins án þess tryggt sé að öryggi sé fullnægjandi. Við hleðslu rafbíla má ekki nota framlengingarsnúrur, fjöltengi eða annað slíkt, beintengja skal hleðslustreng rafbíla milliliðalaust við þar til ætlaðan tengil eða hleðslustöð. Skemmst er að minnast eldsvoða sem varð hér á landi af völdum framlengingarsnúru og gjöreyðilagði tvo rafbíla. 

Mannvirkjastofnun mælir með að við hleðslu rafknúinna ökutækja sé notaður sérhæfður búnaður, sem tryggir að hleðslan fari fram á öruggan og áreiðanlegan hátt.
Í bæklingi Mannvirkjastofnunar má finna leiðbeiningar um helstu atriði sem sérstaklega þarf að gæta að við hönnun og uppsetningu raflagna þar sem hleðsla rafbíla fer fram, sjá hlekk í bækling hér fyrir neðan. Til áréttingar því sem þar kemur fram vill Mannvirkjastofnun benda á eftirfarandi: 

- Tengistaður (tengill eða inntak á bíl) skal vera eins nálægt stæði rafbílsins og mögulegt er.
- Hver tengistaður má einungis fæða eitt farartæki.
- Hver tengistaður skal varinn með yfirstraumvarnarbúnaði, t.d. sjálfvari, sem aðeins ver þennan tiltekna tengistað.
- Hver tengistaður skal varinn með 30mA bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem aðeins ver þennan tiltekna tengistað.
- Bilunarstraumsrofar ættu að vera af gerð B – ekki má nota bilunarstraumsrofa af gerð AC, sem er algengasta gerðin á markaðnum. 
- Bilunarstraumsrofa af gerð A má nota sé tryggt að DC-bilunarstraumur verði að hámarki 6mA, eða að settur sé upp annar búnaður til útleysingar fari hann yfir 6mA.
- Færanlegir tenglar (snúrutenglar), t.d. á framlengingarsnúru eða fjöltengi, eru ekki leyfilegir. 
- 16A tengla til heimilis- og ámóta nota (Schuko) ætti ekki að nota til hleðslu rafbíla – sé það gert skal tryggja að hleðslustraumur geti að hámarki orðið 10A.

Hér er hlekkur á bækling Mannvirkjastofnunar um hleðslu rafbíla og raflagnir: