19.06 2019

Sumarhús og gróðureldar

Sumarhús og gróðureldar

Sumarhúsaeigendur geta dregið úr hættu af völdum gróðurelda og líkum á að þeir geti borist yfir í sumarhús og öfugt með ýmsum forvarnaraðgerðum. Þéttvaxinn gróður upp að sumarhúsum getur skapað stórhættu ef gróðureldar kvikna eða ef eldur kviknar í sumarhúsi. Mælst er til þess að hafa 1,5m frítt og nánast gróðurlaust svæði umhverfis sumarhúsið sem jafnframt tryggir aðgengi að húsinu. Þegar sólpallar og/eða skjólveggir eru gerðir úr timbri og tengjast sumarhúsi skal miða við að þeir séu hluti af húsinu og skal frísvæðið ná út fyrir pallana. Mikilvægt er að hreinsa sinu og dauðan gróður umhverfis sumarhúsin og þá sérstaklega á þurrkatímum.

Þegar kemur að hærri gróðri eins og trjám þarf bilið að vera mun meira til að tryggja að eldur fari ekki á milli gróðurs og sumarhúss. Lagt er til að minni tré komi ekki nær húsunum en 4m þegar um hefðbundið timburhús er að ræða. En hafa skal minnst 9m fjarlægð yfir í stór tré eða almennt skóglendi, t.d. birkiskóg. Í þeim tilfellum sem sumarhús standa inni í þéttum og háum skógi ætti að miða við enn lengri öryggisfjarlægðir eða 10m til 30m allt eftir aðstæðum. Í slíkum tilfellum ætti að leita álits sérfræðinga. Landhalli getur haft áhrif á útbreiðslu gróðurelda og þarf að taka sérstaklega tillit til hans.

Nauðsynlegt er að hafa tiltækan viðbragðsbúnað svo sem brunaslöngu, slökkvitæki og eldklöppur og þekkja öryggisnúmer sumarhússins ef tilkynna þarf eld til Neyðarlínu 112.  Mannvirkjastofnun vill benda á mikilvægi þess að safna ekki rusli o.þ.h. umhverfis sumarhúsin eða undir sólpalla þar sem slíkur eldsmatur getur valdið aukinni hættu. Jafnframt er vert að minna á að fara almennt varlega með grill og opinn eld.

Mannvirkjastofnun tekur þátt í vinnu stýrihóps um gróðurelda með hagsmunaaðilum en víðtækt samstarf er lykillinn að árangri. Frekari upplýsingar má finna inn á heimasíðunni gróðureldar.is og í töflu 5 í handbókinni, Gróðureldar varnir og viðbrögð sem má finna hér.