22.07 2019

Hleðsla rafbíla - val og tenging bilunarstraumsrofa

Hleðsla rafbíla - val og tenging bilunarstraumsrofa

Eins og áður hefur komið fram í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar skal tengistaður til hleðslu rafbíla varinn með yfirstraumvarnarbúnaði og 30mA-bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem einungis verja þennan tiltekna tengistað, sjá hér:

Yfirstraumsvarnarbúnaðurinn getur verið að „hefðbundinni“ gerð, t.d. sjálfvar, en ekki má nota bilunarstraumsrofa af gerð AC, sem líkast til er sú gerð sem algengust er í neysluveitum hér á landi.

Bent er á að uppsetning raflagna og búnaðar til hleðslu rafbíla er tilkynningarskyld samkvæmt verklagsreglum Mannvirkjastofnunar.

Til að verja tengistað rafbíla má nota bilunarstraumsrofa af gerð A sé tryggt að „sléttur“ jafnlekastraumur fari ekki yfir 6mA – það má t.d. gera með sérstökum búnaði í hleðslustöðvum og eins bjóða einhverjir framleiðendur bilunarstraumsrofa sem sérstaklega eru gerðir í þessum tilgangi.
Sé ekki til staðar þessi sérstaki búnaður getur verið erfitt að gera sér grein fyrir hvort líklegt sé að jafnlekastraumur fari yfir 6mA og því er „praktískasta“ lausnin að nota bilunarstraumsrofa af gerð B – sé slíkur rofi notaður er almennt ekki þörf á öðrum búnaði vegna jafnlekastraums.

Sé settur upp bilunarstraumsrofi af gerð B til að verja tengistað rafbíls skal þess gætt að ofar í lögninni séu ekki bilunarstraumsrofar af gerðum A eða AC, þar sem „sléttur“ jafnlekastraumur yfir 6mA getur haft áhrif á virkni bilunarstraumsrofa af þessum gerðum með þeim hætti að þeir leysi ekki lengur út eins og þeim er ætlað.

Hér fyrir ofan eru nokkrar skýringarmyndir, með dæmum sem annar vegar sýna hvernig hægt væri að ganga frá lögninni á réttan hátt og hins vegar hvernig ekki skuli ganga frá henni. 

Sjá bækling.