29.11 2019

Eigið eldvarnareftirlit

Eigið eldvarnareftirlit

Eldvarnasvið Mannvirkjastofnunar hefur að undanförnu lagt áherslu á fræðslu um eigið eldvarnareftirlit og mikilvægi eldvarnarfulltrúa í brunavörnum fyrirtækja og stofnana.  Fyrir þá sem ekki vita er eigið eftirlit daglegt og reglubundið eldvarnareftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og á eigin kostnað. Þannig er að eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.  Frekari upplýsingar má finna í reglugerð nr. 723/2017  um eldvarnir og eldvarnareftirlit.

Mannvirkjastofnun hefur verið í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Brunavarnir Árnessýslu, auk þess sem stofnunin leggur mikla áherslu á samstarf aðila almennt og er Eldvarnabandalagið mikilvægur vettvangur þess samstarfs. Mannvirkjastofnun hélt í nóvember námskeið fyrir eldvarnarfulltrúa hjá Iðunni fræðslusetri í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og er stefnt að halda nokkur slík námskeið á næsta ári víðsvegar um landið.

Mannvirkjastofnun gerði samning við Brunavarnir Árnessýslu um síðustu áramót um framkvæmd námskeiða í eldvarnareftirliti og gerð kynningarmyndbanda um eigið eldvarnareftirlit. Námskeiðin gengu vel og ekki síður gerð myndbandanna. 

Hér er slóð á fræðslusíðu Mannvirkjastofnunar þar sem að má skoða myndböndin sem eru hugsuð sem fyrsta skref fyrir þá aðila sem stefna á að taka upp eigið eldvarnareftirlit eða vilja kynna sér málin almennt.