20.12 2019

Ný stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ný stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur verið samþykkt á Alþingi. Með frumvarpinu verður starfsemi Mannvirkjastofnunar og Íbúðarlánasjóðs sameinuð undir nýrri stofnun sem mun taka til starfa á nýju ári. Markmið með sameiningunni er m.a. að efla stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála hér á landi, skerpa á stjórnsýslu byggingarframkvæmda, hagræða í rekstri hins opinbera með samþættingu verkefna og fækkun stofnana sem og að auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila á sviði húsnæðismála. Þá er ætlunin að stuðla að auknu húsnæðisöryggi landsmanna og stöðuleika á húsnæðismarkaði en með sameiningu stofnana einfaldast og styttast boðleiðir sem leiðir til þess að viðbragðshraði eykst. Til verður stofnun með heildaryfirsýn yfir málaflokkinn sem beitir sér fyrir skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu mannvirkjagerðar.


Mannvirkjastofnun tók til starfa 1. janúar 2011 og tók m.a. við verkefnum Brunamálastofnunar sem var á sama tíma lögð niður. Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga um mannvirki, nr. 160/2010, laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 46/1996. Stofnunin fer einnig með markaðseftirlit með ýmsum vöruflokkum. Íbúðarlánasjóður annast stjórn og framkvæmd húsnæðismála skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 ásamt því að fara með framkvæmd laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2015 og laga um almennar íbúðir nr. 52/2016.