Jafnlaunastefna Mannvirkjastofnunar

Markmið

Markmið jafnlaunastefnu Mannvirkjastofnunar er að starfsfólk stofnunarinnar hafi jöfn laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar á vinnustaðnum.

Umfang

Stefnan nær til allra starfsmanna Mannvirkjastofnunar.

Framkvæmd og rýni

Mannvirkjastofnun starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við jafnréttislög og í samræmi við jafnlaunastaðal IST 85 til að vega störf og verðmeta þau og til að tryggja að stofnunin starfi samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum varðandi jafnlaunamál. Við launaákvörðun er stuðst við grunnröðun samkvæmt stofnanasamningi, sem byggir á starfsmati, og persónubundnu mati á hæfni og frammistöðu og þannig er séð til að starfsmönnum sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Á þetta við um öll starfskjör og réttindi sem metin verða til fjár. Við ráðningu nýrra starfsmanna er fylgt verklagsreglum sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um ábyrgð, álag og hæfni.

Skrifstofustjóri ber ábyrgð á skjalfestingu, innleiðingu og framkvæmd jafnlaunastefnunnar. Hann sér um reglulega mælingu á árangri stefnunnar þar sem mælt er hvort munur er á launum kynjanna miðað við jafn verðmæt störf. Hann sér til þess að brugðist sé við frábrigðum og unnið sé að viðhaldi og framþróun jafnlaunakerfisins með stöðugum umbótum og eftirliti.

Forstjóri ber ábyrgð á því að stefnunni sé viðhaldið, hún sé rýnd og endurskoðuð árlega af Framkvæmdaráði MVS. Forstjóri ber ábyrgð á því að jafnlaunastefnan sé kynnt árlega fyrir starfsmönnum.

Gæðastjóri ber ábyrgð á að jafnlaunastefna Mannvirkjastofnunar sé aðgengileg hagsmunaaðilum og almenningi, til dæmis á vef stofnunarinnar eða sé til á prentuðu formi.

Jafnlaunastefna Mannvirkjastofnunar er samþykkt á fundi gæðaráðs og af forstjóra. 

Reykjavík, 20. mars 2018.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar.

Til baka