Mannauðsstefna Mannvirkjastofnunar

1 Markmið og leiðarljós

Mannvirkjastofnun er stjórnsýslustofnun sem sinnir á skilvirkan hátt lögbundnum verkefnum sínum í því skyni að auka öryggi fólks, lágmarka umhverfisáhrif og bæta gæði mannvirkja. Stofnunin leitast við að vera öflug og traust stofnun í samfélaginu, með áherslu á þjónustu við viðskiptavini sína, samvinnu við hagsmunaaðila og önnur stjórnvöld og fagmennsku í vinnubrögðum.

Til að Mannvirkjastofnun geti rækt hlutverk sitt og náð þeim markmiðum sem að er stefnt er grundvallaratriði að stofnunin hafi yfir að ráða hæfu starfsfólki sem rækir starf sitt af metnaði, alúð og áhuga.

Mannvirkjastofnun vill vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem stöðugt er leitast við að efla starfsemina, einstaklingar starfa saman sem ein liðsheild og verkaskipting og úthlutun verkefna er skýr.

Með setningu mannauðsstefnu er ætlunin að byggja upp traust, samvinnu og metnað viðskiptavinum stofnunarinnar til hagsbóta. Mannauðsstefnan veitir yfirsýn yfir starfsumhverfi, helstu réttindi og skyldur. Henni er ætlað að leiðbeina starfsmönnum og stuðla að gagnkvæmum skilningi milli starfsmanns og vinnuveitanda.

Mannauðsstefna Mannvirkjastofnunar gildir um alla fastráðna og lausráðna starfsmenn stofnunarinnar og bera þeir sameiginlega ábyrgð á að framfylgja stefnunni.

2 Stjórnun

Hjá Mannvirkjastofnun starfa hæfir og ábyrgir stjórnendur með skýrt skilgreint hlutverk. Stjórnendur leggja áherslu á að byggja upp sterka liðsheild, útdeila verkefnum á viðeigandi hátt og styðja starfsmenn til að ná markmiðum stofnunarinnar. Stjórnendur stuðla að góðu og traustu samstarfi við innri jafnt sem ytri aðila. Mikilvægt er að upplýsingastreymi sé gott og að stjórnendur hafi það hugfast að samskipti má alltaf efla. Mannvirkjastofnun og stjórnendur taka ábyrgð á verkum sínum og eru sífellt að leitast við að bæta frammistöðu sína í þágu almannahags.

3 Starfsmaðurinn og starfsmannasamtöl

Mannvirkjastofnun leggur áherslu á að starfsfólk rækir starf sitt af metnaði, alúð og áhuga, sé ábyrgt í starfi sínu og komi vel fram fyrir hönd stofnunarinnar gagnvart viðskiptavinum, samstarfsfyrirtækjum og vinnufélögum. Ábyrgð og umboð til ákvarðanatöku skulu vera starfsfólki ljós og mikilvægt er að það sýni frumkvæði, sjálfstæði og hæfni til samstarfs.

Regluleg starfsmannasamtöl starfsmanns og næsta yfirmanns fara fram a.m.k. einu sinni á ári. Í þeim samtölum er fyrst og fremst rætt um starf og starfsþróunaráætlun, frammistöðu og hæfni starfsmanns, afköst og vinnuaðstöðu og líðan í starfi. Þá er gert ráð fyrir að starfslýsingar séu yfirfarnar og eftir atvikum endurskoðaðar. Tilgangur starfsmannasamtala er að ná fram markmiðum stofnunarinnar, viðhalda góðum alhliða samskiptum og gera viðeigandi úrbætur.

4 Ráðningar 

Vandað er til verka við ráðningu starfsfólks Mannvirkjastofnunar til að tryggja að stofnunin hafi á að skipa hæfu starfsfólki. Áður en starf er auglýst skal liggja fyrir starfslýsing sem auglýsing og matsaðferðir taka mið af. Fylgja skal lögum við ráðningar og skulu umsækjendur metnir eftir fyrirfram ákveðnum matsaðferðum. Framtíðarsýn og leiðarljós stofnunarinnar eru höfð í huga við val á starfsfólki. Frumkvæði, jákvæðni, samskiptahæfni og faglegur metnaður eru því eiginleikar sem leitað er eftir. Laus störf skulu standa konum jafnt sem körlum til boða.

5 Móttaka nýliða

Tekið er vel á móti nýjum starfsmönnum Mannvirkjastofnunar og þeim veitt fræðsla um málefni stofnunarinnar, markmið og framtíðarsýn. Nýliðar í starfi fá skipaðan leiðbeinanda í upphafi starfs og er hlutverk hans að veita upplýsingar og handleiðslu. Gerður er skriflegur ráðningarsamningur þar sem fram koma launaflokkur og önnur launakjör, ábyrgðarsvið og fleira.

6 Ábyrg þjónusta og upplýsingamiðlun

Starfsmenn hafa þjónustu, samvinnu og fagmennsku að leiðarljósi í samskiptum sínum við viðskiptavini. Með því er traust á stofnuninni eflt og stuðlað að langtímasambandi á milli starfsfólksins, viðskiptavina, birgja og samfélagsins.

Mannvirkjastofnun leggur áherslu á markviss, heiðarleg og leiðbeinandi vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum sínum og stöðugt er leitað eftir samstarfi við hagsmunaaðila. Starfsfólk stofnunarinnar er jákvætt og leiðbeinandi gagnvart öllum þeim til hennar leita og stuðlar þannig að góðu samstarfi til framtíðar. Lögð er áhersla á að öll ákvarðanataka sé fagleg og gegnsæ.

Miðlun upplýsinga innan Mannvirkjastofnunar skal vera með þeim hætti að starfsmenn hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa vegna starfa sinna. Starfsmenn bera einnig ábyrgð á að leita eftir upplýsingum sem gera þeim kleift að inna sín störf af hendi. Starfsmanni ber að virða þagnarskyldu og trúnað og fara með tilskilin mál á þann hátt.

7 Vinnutími og fjölskylda

Mannvirkjastofnun leggur áherslu á að starfsmönnum líði vel og að jafnvægi sé milli vinnu og einkalífs. Vinnutími er sveigjanlegur eftir því sem því verður við komið og að höfðu samráði við yfirmann. Yfirvinnu er haldið í lágmarki og stjórnendur bera virðingu fyrir frítíma starfsmanna. Leitast er við að koma til móts við tímabundnar þarfir þeirra starfsmanna sem verða fyrir áföllum eða veikindum samkvæmt því sem nánar greinir í starfsmannahandbók.

8 Samskipti og velferð starfsmanna

Starfsfólk stofnunarinnar vinnur sem ein heild með áherslu á samvinnu. Starfsmenn hafa samvinnu sín á milli og miðla þekkingu milli sviða.

Starfsmenn leggja metnað sinn í að skapa gott vinnuumhverfi og góðan vinnustað þar sem skoðunum annarra og faglegu áliti er sýnd tilhlýðileg virðing. Stjórnendur og aðrir starfsmenn stuðla að góðum samskiptum með jákvæðni, virðingu og hrósi. Starfsmenn umgangast hver annan af kurteisi og heiðarleika, sýna hreinskilni og nærgætni og baktala ekki. Hegðun sem veldur öðrum vanlíðan og óþægindum er ekki liðin. Stöðugt er leitast við að efla liðsheild og gagnkvæman stuðning starfsmanna.

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni eru ekki undir neinum kringumstæðum liðin.

9 Kjaramál og launastefna

Mannvirkjastofnun vill bjóða starfsfólki sínu góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo stofnunin geti ráðið til sín og haldið hæfu starfsfólki í samkeppni við innlendan og erlendan vinnumarkað.

Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Laun skulu ákvörðuð á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða. Mannvirkjastofnun virðir gildandi kjarasamninga og stofnanasamninga. Miðað er við að launakerfi stofnunarinnar nýtist sem stjórntæki til að ná fram markmiðum stofnunarinnar og verði starfsmönnum hvatning til markvissari vinnu og aukinna afkasta. Þá er stefnt að því að launakerfið meti frammistöðu og hæfni einstaklinga í starfi og feli í sér tækifæri fyrir starfsmenn til framgangs í starfi og til starfsþróunar.

10 Fræðsla og starfsþróun

Mannvirkjastofnun telur að símenntun og starfsþróun séu mikilvægar forsendur þess að stofnunin nái þeim árangri sem stefnt er að og hvetur starfsmenn til að þróa og efla hæfileika sína.

Stofnunin stendur fyrir og stuðlar að markvissri þjálfun og fræðslu á fagsviðum stofnunarinnar. Stofnunin skilgreinir árlega í fræðsluáætlun og kynnir fyrir starfsmönnum þarfir stofnunarinnar fyrir uppbyggingu þekkingar og færni, til dæmis út frá gæðaúttektum og almennri stefnumótun. Stefnt er að því að hver starfsmaður hafi kost á að þróast með einhverjum hætti í starfi á hverju ári.

Stjórnendur hafa aðkomu að öllum ákvörðunum vegna starfsþróunar sem tengjast útgjöldum af hálfu stofnunarinnar, auk þess að bera ábyrgð á að leiðbeina starfsmanni, veita endurgjöf og aðstoða við útfærslu.

Mannvirkjastofnun ráðstafar árlega til starfsþróunar fjármunum samkvæmt stofnanasamningum auk viðbótarfjármagns samkvæmt fjárhagsáætlun hverju sinni.

11 Frumkvæði og nýsköpun

Dýrmætasta auðlind hvers fyrirtækis er þekking starfsfólksins. Mannvirkjastofnun stuðlar að frumkvæði þess og hvetur það til nýsköpunar í starfseminni með aukinn árangur að leiðarljósi. Starfsfólkið fær hvatningu til að leggja fram hugmyndir og lýsingu á framkvæmd þeirra og stjórnendur eru reiðubúnir til að taka við hugmyndunum og vinna þær áfram í samstarfi við starfsfólk. Enn fremur stendur Mannvirkjastofnun fyrir og stuðlar að rannsóknum á fagsviði sínu.

12 Jafnrétti

Mannvirkjastofnun leggur áherslu á að allt starfsfólk stofnunarinnar ber sameiginlega ábyrgð á að gæta að jafnræði kynjanna og jafnrétti almennt.

Jafnréttisstefna Mannvirkjastofnunar endurspeglar vilja til að gæta jafnréttis allra starfsmanna og að virt séu í hvívetna ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnrétti snýr að jöfnum tækifærum starfsmanna til að sinna, líða vel og þroskast í starfi sínu og samræma einkalíf við vinnu. Starfsmenn og viðskiptavinir skulu njóta jafns réttar óháð kynferði, aldri, fötlun, kynhneigð, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trú eða þjóðerni.

13 Vinnuvernd, aðbúnaður og öryggismál

Mannvirkjastofnun leggur mikla áherslu á öryggi og aðbúnað starfsmanna. Stofnunin tryggir starfsmönnum sínum heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi byggt á vönduðu áhættumati og áætlun um heilsu.

Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til aðgætni í starfi og stuðla þannig að auknu öryggi á vinnustað.

12. maí 2017 
Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar

Til baka